Spennan magnast í Frakklandi

Kosningaþátttaka hefur verið góð í forsetakosningunum í Frakklandi í dag. Eins hafa Frakkar sem búsettir eru erlendis mætt á kjörstaði, meðal annars í Lundúnum en fjölmargir Frakkar eru búsettir í borginni.

Um fyrri umferð kosninganna er að ræða en ef enginn frambjóðandi fær meira en 50% atkvæða verður kosið á milli þeirra tveggja sem fá flest atkvæði í fyrri umferðinni.

Flestir telja að þeir Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, og frambjóðandi sósíalista, Francois Hollande, muni takast á í seinni umferðinni. Skoðanakannanir benda til þess að Hollande muni hafa betur, bæði í dag og hinn 6. maí. Hins vegar hefur bilið á milli þeirra minnkað að undanförnu og því ómögulegt að segja til um hver niðurstaðan verður.

Kjörstaðir eru opnir á flestum stöðum til klukkan 18 í dag að frönskum tíma, 16 að íslenskum tíma. Hins vegar verða kjörstaðir opnir lengur í stærstu borgum landsins, eða til klukkan 18 að íslenskum tíma. Von er á fyrstu tölum klukkan 18 að íslenskum tíma, klukkan 20 að frönskum tíma, á sama tíma og kosningu verður lokið alls staðar.

Ef Hollande verður kjörinn forseti verður hann fyrsti vinstri sinnaði forseti Frakklands frá því  Francois Mitterrand var forseti en hann var við völd 1981-1995.

Ef Sarkozy tapar verður hann fyrsti sitjandi forseti Frakklands til þess að tapa forsetakosningum frá því  Valery Giscard d'Estaing tapaði fyrir Mitterand árið 1981.

Reuters-fréttastofan segir að kjörsókn Frakka sé góð í Lundúnum en alls búa um 350 þúsund franskir ríkisborgarar í borginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert