Niðurskurður nú í höndum þingsins

Hollenska ríkisstjórnin undir forsæti Mark Rutte hefur sagt af sér. Rutte gekk á fund hollensku drottningarinnar í dag og óskaði afsagnar.

Í tilkynningu frá ríkisstjórninni kemur fram að Rutte hafi boðað afsögn ríkisstjórnarinnar allrar og aðstoðarráðherra strax í dag. Beatrix drottning er nú að fara yfir afsagnarbeiðnina. Hún hefur beðið ríkisstjórnina að halda áfram að gera það sem er landinu fyrir bestu. 

Fastlega hefur verið búist við afsögninni eftir að viðræður ríkisstjórnarflokkanna tveggja, en um minnihlutastjórn er að ræða, og leiðtoga Frelsisflokksins, Geert Wilders, um niðurskurð hjá hinu opinbera runnu út í sandinn á laugardag.

Er það nú í höndum hollenska þingsins að fjalla um niðurskurðaráætlunina sem hljóðar upp á 16 milljarða evra. Hefur fundur verið boðaður í neðri deild þingsins á morgun klukkan 14 að hollenskum tíma. Stjórnvöld í Hollandi hafa frest til 30. apríl til þess að kynna aðgerðir til að draga úr fjárlagahallanum sem er umfram heimildir Evrópusambandsins.

Mark Rutte yfirgefur fund með drottningunni nú síðdegis
Mark Rutte yfirgefur fund með drottningunni nú síðdegis AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert