Sarkozy er sigurviss

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, blæs á allar vangaveltur um að hann gæti verið á förum úr forsetahöllinni og segist sigurviss fyrir næstu umferð forsetakosninganna sem verður haldin 6. maí.

„Þrátt fyrir allt, þrátt fyrir að sumir hefðu enga trú á mér, þrátt fyrir lygar og bellibrögð var okkur ekki sópað undir teppið eins og sumir sögðust ætla að gera,“ sagði Sarkozy í dag. 

„Við bárum höfuðið hátt og það vakti undrun margra. Aðrir spáðu því að Frakkar myndu ekki kjósa. En Frakkar kusu, meira en 80% þeirra gerðu það. Það þýðir að franska þjóðin er sér meðvitandi um borgaralegar skyldur sínar.“

Helsti andstæðingur Sarkozys, Francois Hollande, sem fékk flest atkvæði í forsetakosningunum í gær, segir að forsetinn búi yfir þeim einstaka hæfileika að sannfæra sjálfan sig. „Í gær reyndi hann að breyta tapi yfir í sigur. Hann heldur að forsetatíð hans hafi verið vel heppnuð. En meira en 73% Frakka eru á öðru máli,“ sagði Hollande.

Sarkozy biðlar nú til kjósenda yst á hægri vængnum sem kusu Marine Le Pen í fyrri umferðinni. Stjórnmálaskýrendur segja að honum gæti reynst erfitt að telja þá á að kjósa sig vegna afstöðu hans til Evrópusambandsins og samstarfs við miðjuflokka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert