Hollenska þingið leyst upp

Mark Rutte, fráfarandi forsætisráðherra Hollands.
Mark Rutte, fráfarandi forsætisráðherra Hollands. AFP

Beatrix Hollandsdrottning hefur beðið fráfarandi ríkisstjórn landsins um að leysa upp þing landsins. Mark Rutte, forsætisráðherra, gekk á fund drottningar í gær og baðst lausnar fyrir stjórn sína og eru kosningar fyrirhugaðar 12. september.

Búist hafði verið við afsögninni eftir að viðræður ríkisstjórnarflokkanna tveggja, sem sátu í minnihlutastjórn, og leiðtoga Frelsisflokksins, Geert Wilders, um niðurskurð hjá hinu opinbera runnu út í sandinn á laugardag.

Viðræður um niðurskurðinn höfðu þá staðið yfir í sjö vikur. Í tillögum stjórnarflokkanna fólst 14,4 milljarða evra sparnaður og hefði þær orðið að veruleika hefði tekjuhalli ríksisins lækkað í 2,8% af áætlaðri þjóðarframleiðslu ársins 2013, en hann var 4,7% á síðasta ári. Það hámark, sem löndum Evrópusambandsins er sett, eru 3% af þjóðarframleiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert