Kjósa um dauðarefsingar

Dauðarefsingar eru umdeildar í Bandaríkjunum.
Dauðarefsingar eru umdeildar í Bandaríkjunum. reuters

Meira en hálf milljón íbúa í Kaliforníu hefur skrifað undir áskorun um að dauðarefsingar í ríkinu verði afnumdar. Þetta nægir til þess að spurning um hvort breyta eigi lögum og afnema dauðarefsingar verður lögð fyrir kjósendur þegar þeir ganga til forsetakosninga í nóvember.

Dauðarefsingar í Kaliforníu voru afnumdar árið 1972, en teknar upp að nýju í lög árið 1978. Frá þeim tíma hafa aðeins 13 menn verið teknir af lífi í ríkinu. Þeir sem styðja afnám dauðarefsinga segja að með lagabreytingunni sé hægt að spara ríkinu um 100 milljónir dollara á ári.

723 bíða þess að verða teknir af lífi í Kaliforníu. Ekkert ríki Bandaríkjanna er með fleiri menn á dauðadeild. Í frétt BBC um þetta mál segir að mikill stuðningur sé í ríkinu við að endurskoða lög um dauðarefsingar. Núverandi staða gangi ekki upp.

Ein af þeim sem beitt hafa sér í málinu er Jeanne Woodford, fyrrverandi fangavörður í San Quentin-fangelsinu, þar sem margir fangar bíða þess að verða teknir af lífi. Hún segir að það kerfi sem Kalifornía býr við gangi ekki upp og mikil hætta sé á að mistök séu gerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert