Rutte biðlar til þingsins

Mark Rutte
Mark Rutte Reuters

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, biðlaði til þingmanna í neðri deild hollenska þingsins um að samþykkja niðurskurðaráætlun ríkisstjórnarinnar. Ekki tókst að ná samkomulagi um niðurskurðinn á fundi leiðtoga stjórnarinnar og Geerts Wilders, leiðtoga Frelsisflokksins, á laugardag. Baðst Rutte lausnar fyrir ríkisstjórn sína í kjölfarið.

Að sögn Rutte er niðurskurðurinn hjá hinu opinbera nauðsynlegur enda þýði ekki að standa hjá á tímum sem þessum.

Wilder gekk út af fundi um niðurskurðinn síðdegis á laugardag en fjárlagahallinn í Hollandi er umfram það sem reglur Evrópusambandsins heimila.

Wilder er einna helst þekktur fyrir eindregna andstöðu sína gegn innflytjendum, einkum þeim sem aðhyllast íslam. Hann er einnig harður andstæðingur ESB og sagði hann við stuðningsmenn sína að hann hefði ekki getað búið við þessar kröfur og sakaði ESB um að stela peningum úr vasa fátæklinga og eldri borgara.

Flokkur Wilders á ekki aðild að ríkisstjórninni en hefur stutt hana undanfarna átján mánuði. Kjördagur hefur ekki verið ákveðinn í Hollandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert