Munurinn minnkar

Francois Hollande, frambjóðandi sósíalista í frönsku forsetakosningunum 2012.
Francois Hollande, frambjóðandi sósíalista í frönsku forsetakosningunum 2012. AFP

Tengsl Francois Hollande, frambjóðanda Sósíalistaflokksins í forsetakosningunum í Frakklandi, við Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, gætu komið honum í koll, en kosningastjóri Hollande sat að sumbli með Strauss-Kahn um helgina. Kannanir sýna að nokkuð hefur dregið saman með þeim Hollande og Sarkozy.

Kosningastjóranum, Pierre Moscovici, var boðið í afmæli á vinsælu diskóteki um helgina, en diskótekið stendur við þekkta vændisgötu. Meðal gesta var Strauss-Kahn, sem talinn er tengjast vændishring. 

Segolene Royal, sem löngum hefur verið í framvarðarsveit sósíalistaflokksins, varð æf er hún sá að Strauss-Kahn var á staðnum og rauk á dyr. Svo vill til að Royal er fyrrverandi eiginkona Hollande og eiga þau fjögur börn saman. 

„Ég var heppin að komast hjá því að hitta hann (Strauss-Kahn),“ sagði hún við blaðamenn. „Ég fór af staðnum vegna þess að það kemur ekki til greina í mínum huga að hitta Dominique Strauss-Kahn vegna þess hvernig hann hefur komið fram við konur.“

Stuðningsmenn Sarkozys forseta, sem nú heyr harða baráttu við Hollande, voru ekki lengi að færa sér þennan atburð í nyt og drógu dár að staðsetningu afmælisins.

Nýjustu skoðanakannanir sýna að nokkuð hefur dregið saman með frambjóðendunum, en Hollande mælist þó með ívið meira fylgi, eða 54% á móti þeim 46% sem Sarkozy mælist með.

Fjöldi kosningafunda er fyrirhugaður hjá báðum frambjóðendum á næstu dögum, en baráttan nær hámarki á miðvikudaginn þegar þeir mætast í beinni útsendingu frá kappræðum. Síðari umferð kosninganna verður á sunnudaginn, 6. maí.

Nicolas Sarkozy forseti Frakklands.
Nicolas Sarkozy forseti Frakklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert