Strauss-Kahn nýtur ekki friðhelgi

Dominique Strauss-Kahn og Nafissatou Diallo.
Dominique Strauss-Kahn og Nafissatou Diallo. AP

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn mun samkvæmt niðurstöðu dómstóls í New York þurfa að mæta fyrir rétt í einkamáli vegna áskana um kynferðislegt ofbeldi. Dómurinn hafnar því að Strauss-Kahn njóti friðhelgi. Þegar hann hafi látið af embætti framkvæmdastjóra AGS hafi hann misst friðhelgi sína.

Nafissatou Diallo sakar Strauss-Kahn um að hafa neytt hana til munnmaka á hótelherbergi í New York 14. maí á síðasta ári. Saksóknari ákærði Strauss-Kahn en ákærurnar voru síðar látnar niður falla þar sem saksóknari taldi Diallo ekki trúverðugt vitni í málinu.

Diallo höfðaði í kjölfarið einkamál á hendur Strauss-Kahn. Verjendur hans segja að hann njóti friðhelgi vegna starfa sinna fyrir AGS og því sé ekki hægt á kæra hann. Þessu hefur dómur í New York nú hafnað.

Í niðurstöðu dómsins segir að Strauss-Kahn geti ekki beitt friðhelgi fyrir sig til að hreinsa nafn sitt nú (hann gerði það ekki áður) í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að Diallo fái tækifæri til að hreinsa sitt nafn.

Verjendur Strauss-Kahn segja hann hafa orðið fyrir vonbrigðum með dóminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert