Vilja afnema neitunarvald konungsins

Frá Liechtenstein.
Frá Liechtenstein. Reuters

Erfðaprinsinn í Liechtenstein hefur hótað að segja af sér ef neitunarvald konungsfjölskyldunnar verður afnumið eins og aðgerðarsinnar í landinu vilja gera.

Sama fjölskyldan hefur ríkt opinberlega í Liechtenstein frá því landið varð sjálfstætt árið 1806. En leiðtogi hennar, prinsinn Alois von und zu Liechtenstein, hefur hótað að binda endi á 900 ára valdasögu fjölskyldunnar ef tillaga um afnám neitunarvalds hennar nái fram að ganga. Breyta þarf stjórnarskránni til að afnema neitunarvaldið.

Konungsfjölskyldunni er þökkuð velsæld þessa litla ríkis í gegnum tíðina en prinsinn vill ekki axla ábyrgð áfram ef neitundarvald hans verður afnumið.

Konungsdæmið Liechtenstein telur aðeins um 36 þúsund íbúa. Landið liggur milli Austurríkis og Sviss og eru lífskjör þar með því besta sem gerist í heiminum.

Faðir prinsins, Hans-Adam II, framseldi völd sín til elsta sonar síns árið 2004 en er þó enn þjóðhöfðingi landsins. Fjölskyldan býr í miðaldakastala sem gnæfir yfir höfuðborgina Vaduz. Aðgerðarsinnar vilja nú að borgararnir fái meira vægi við ákvarðanatöku og hafa því mælst til þess að neitunarvald konungsins verði afnumið. Vilja þeir að stjórnarskránni verði breytt í þessa veru.

Hópurinn komst fyrst í kastljósið í fyrra er prinsinn hótaði að beita neitundarvaldi yrði tillaga um að lögleiða fóstureyðingar í landinu samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillagan var ekki samþykkt í kosningunum og segja aðgerðarsinnar að hótun prinsins hafi haft áhrif á niðurstöðu kosninganna.

Talsmaður aðgerðahópsins segir að markmiðið með því að afnema neitunarvaldið sé ekki að fella konungsfjölskylduna heldur að færa valdið til fólksins í landinu í auknum mæli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert