Gleymdist handjárnaður í klefa í 5 daga

Daniel Chong.
Daniel Chong. sky.com

Háskólanemi í Kaliforníu í Bandaríkjunum hefur höfðað mál á hendur bandarísku fíkniefnalögreglunni (DEA) eftir að hann gleymdist handjárnaður inni í fangaklefa í fimm daga. Allan tímann var hann án vatns og matar og drakk eigið þvag til að lifa vistina af.

Daniel Chong, 23 ára verkfræðinemi, var þann 21. apríl sl. handtekinn ásamt átta öðrum í húsleit sem DEA framkvæmdi í San Diego. Í leitinni fundust byssur, skotfæri og eiturlyf. Mennirnir níu voru færðir í yfirheyrslur en að þeim loknum var tekin ákvörðun um að Chong yrði ekki ákærður og stóð til að sleppa honum. Hann ætti að bíða í skamma stund í fangaklefa áður en honum yrði ekið heim.

Chong beið og beið í 4,5 fm klefanum, með hendur járnaðar fyrir aftan bak, en ekkert gerðist. Klefinn var gluggalaus og var ekkert klósett í honum. Eftir því sem klukkustundirnar liðu hóf hann að sparka í hurðina og öskra eins hátt og hann gat. Hann notaði tennurnar til að rífa bút úr jakka sínum og ýtti honum undir hurðina í von um að einhver sæi hann og opnaði í kjölfarið dyrnar.

Á einhverjum tímapunkti reyndi Chong að svipta sig lífi með því að brjóta gleraugun sín og nota glerbrotin til að rista „fyrirgefðu mamma“ á annan handlegginn sinn. Eftir að hann losnaði úr prísundinni og var fluttur á spítala fundu hjúkrunarfræðingar glerbrot í hálsi hans.

Chong byrjaði að sjá ofsjónir á þriðja degi. Hann segist hafa séð litlar teiknimyndafígúrur sem sögðu honum að vatn væri að finna í veggjunum. „Ég hamaðist á veggjunum og beið eftir að vatn flæddi inn í klefann, af einhverri ástæðu,“ sagði Chong í viðtali en hann varð svo þyrstur að í örvæntingu drakk hann þvagið sitt. „Ég get ekki alveg útskýrt ofsjónirnar mínar því það var ekkert vit í þeim. Mér leið eins og ég væri að tapa glórunni,“ bætti hann við en Chong léttist um 7 kg meðan á vistinni stóð.

Fjórum dögum síðar opnuðu lögreglumennirnir dyrnar að klefanum fyrir tilviljun og við þeim blasti Chong þakinn í eigin saur. Hann var umsvifalaust fluttur á spítala en auk þess að þjást af vökvaskorti óttast læknar að hann þjáist einnig af nýrnabilun. Hann var útskrifaður af spítala sl. helgi.

Lögmaður Chongs krefst 20 milljóna bandaríkjadala í skaðabætur, sem nemur tæpum 2,5 milljörðum króna, og segir meðferðina á skjólstæðingi sínum falla undir pyntingar samkvæmt bandarískum lögum. Hefði hann verið í klefanum í 12-24 klst. til viðbótar hefði hann eflaust látist.

Fíkniefnalögreglan hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hún biðst afsökunar á yfirsjóninni en  útskýrir málið ekki nánar. Þó segir að í húsleitinni, þar sem Chong var handtekinn, hafi fundist 18 þúsund amfetamíntöflur, maríjúana, ofskynjunarsveppir og lyfseðilsskyld lyf, auk skotvopna og skotfæra. Við yfirheyrslur hafi Chong viðurkennt að hann hafi verið staddur í húsinu í þeim tilgangi að komast í vímu.

William Sherman, yfirmaður San Diego-deildar DEA, segir í yfirlýsingu að hann sé miður sín vegna atviksins og hafi fyrirskipað rannsókn á starfsháttum lögreglunnar.

Læknar segja að sár Chongs muni gróa en sjálfur segir hann andlegu heilsuna ekki góða og hann brotni reglulega niður og gráti. „Ég er mjög ánægður með að þeir hafi fundið mig. Þeir komu ekki aftur, hunsuðu hróp mín og ég veit enn ekki hvað gerðist. Ég skil ekki hvernig þeir gátu gleymt mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert