Sarkozy á kjörstað

Nicolas Sarkozy kýs í París í morgun.
Nicolas Sarkozy kýs í París í morgun. AFP

Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, mætti á kjörstað í París í morgun. Hann og eiginkonan, Carla Bruni, voru umkringd fjölmiðlum við komuna. Kjörsókn er þegar orðin um 30% en yfir 46 milljónir eru á kjörskrá. Er kjörsókn forsetakosninganna nú, þegar kjörstaðir hafa verið opnir í fjórar klukkustundir, aðeins minni en hún var í kosningunum árið 2007 en þá var hún 34,11% á sama tíma. Keppinautur Sarkozy, sósalistinn François Hollande, kaus ásamt unnustu sinni í heimabænum Tulle.

Skoðanakannanir benda til að Sarkozy eigi á brattann að sækja en Hollande hefur undanfarnar vikur haft töluvert forskot í könnunum. Síðustu skoðanakannanir, sem framkvæmdar voru á föstudag, benda þó til að Sarkozy hafi sótt á Hollande og aðeins munaði um 4% á fylgi þeirra þá. Sarkozy hefur barist af krafti síðustu daga við að sannfæra kjósendur um endurkjör sitt. Eitt helsta áhyggjuefni kjósenda í Frakklandi er vitaskuld efnahagsástandið og í tengslum við það, aukinn fjöldi innflytjenda til landsins. Sarkozy hefur sagst ætla að takmarka straum innflytjenda til landsins.

Sarkozy hefur því haft vindinn í fangið í kosningabaráttunni. Stór hluti Frakka er óánægður með hversu lítið hefur orðið úr loforðum forsetans – einkum þó þau er varða afkomu þeirra – frá kjöri hans 2007. Þá komst hann til valda á loforðum um aukin lífsgæði, meiri kaupmátt, stöðugleika í atvinnu- og efnahagslífi og hagvöxt. Ekki leið á löngu uns alþjóðleg fjármálakreppa skall á og stöðvaði þessi áform hans. Efnahagslífið hefur ekki enn náð sér á strik.

Tapi Sarkozy slagnum verður hann 11. þjóðarleiðtoginn í Evrópu sem fer frá völdum vegna efnahagshrunsins í álfunni. Hollande yrði fyrsti forseti Sósíalistaflokksins í landinu í 17 ár.

Kjörstöðum verður lokað kl. 16 að íslenskum tíma víðast hvar í Frakklandi en þeir verða opnir tveimur tímum lengur í stærri borgunum.

Nicolas Sarkozy kyssir á öxl eiginkonunnar, Cörlu Bruni-Sarkozy er þau …
Nicolas Sarkozy kyssir á öxl eiginkonunnar, Cörlu Bruni-Sarkozy er þau mæta á kjörstað í morgun. AFP
François Hollande, forsetaframbjóðandi, á kjörstað ásamt unnustu sinni Valerie Trierweiler.
François Hollande, forsetaframbjóðandi, á kjörstað ásamt unnustu sinni Valerie Trierweiler. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert