Hollande tekur við 15. maí

Francois Hollande mun taka við sem forseti Frakklands af Nicolas Sarkozy hinn 15. maí næstkomandi, samkvæmt upplýsingum frá forsetaembættinu. 

Var þetta niðurstaða í viðræðum kosningastjóra Hollandes, Pierres Moscovicis, og starfsmannastjóra Sarkozys, Xaviers Musca, í morgun. Sarkozy tilkynnti stuðningsmönnum sínum í gærkvöldi að hann ætlaði ekki að leiða flokk sinn í komandi þingkosningum og að hann myndi hætta í stjórnmálum eftir að hafa orðið undir í seinni umferð forsetakosninganna í gær. Hollande fékk tæplega 52% fylgi í kosningunum í gær.

Karl Blöndal fór yfir æviferil Francois Hollande í Sunnudagsmogganum um helgina. Þar kom fram að Hollande fæddist í Rúðuborg 12. ágúst 1954. Móðir hans var félagsfulltrúi og faðir hans læknir. Til þess er tekið í æviágripum að faðir hans hafi boðið sig fram fyrir hægri öfgamenn. Talið er að eftirnafn hans sé komið frá forfeðrum sem voru kalvínistar og flúðu frá Hollandi á 16. öld. Þeir hafi tekið nafnið upp þegar þeir komu til Frakklands.

Hollande á sér langan feril í franska Sósíalistaflokknum og hefur gegnt ýmsum ábyrgðarstöðum innan hans, en ekki setið í mikilvægum embættum utan flokksins, sem andstæðingar hans hafa sagt að sé til marks um reynsluleysi.

Hollande var orðaður við forsetaframboð í 2007, en stuðningur hans við samþykki við stjórnarskrá Evrópu, sem var felld í þjóðaratkvæði, átti þátt í að skemma fyrir honum. Svo fór að þáverandi maki hans, Segolene Royal, varð frambjóðandi sósíalista og tapaði hún gegn Nicolas Sarkozy. Hollande og Royal eru nú skilin.

Fall Dominiques Strauss-Kahns, fyrrverandi yfirmanns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þegar hann var sakaður um kynferðislegt ofbeldi við starfsmann hótels í New York, greiddi götu Hollandes.

Hollande hóf hins vegar forsetaframboð sitt í raun fyrir tveimur og hálfu ári. „Ég held að það sé kominn tími fyrir venjulegan forseta,“ sagði hann þegar hann var staddur í Alsír í desember 2010. Staða hans var hins vegar ekki góð. Hann gegndi þá ekki forustuembætti í flokknum, þótti ekki hafa sterkt bakland þar og var talinn litlaus. Áður en hann var gerður að frambjóðanda flokksins sögðu 17% Frakka að hann væri gott forsetaefni og var hann fimmti og var langt á eftir Strauss-Kahn. Hollande hélt hins vegar ótrauður áfram baráttu sinni og þegar Strauss-Kahn var úr sögunni skaust hann fram fyrir önnur efni í flokknum og skoðanakannanir fóru að sýna að hann hefði jafnvel meira fylgi en forsetinn.

Francois Hollande ásamt unnustu sinni Valerie Trierweiler
Francois Hollande ásamt unnustu sinni Valerie Trierweiler Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert