Beitti brennheitum járnteini í refsingarskyni

Stúlkurnar hlutu brunasár á kálfunum.
Stúlkurnar hlutu brunasár á kálfunum. bbc.co.uk

Lögreglan í Bangladess hefur handtekið kennara í trúarlegum skóla en hann lagði glóðheitan járntein á fætur nemenda sinna sem voru ekki nógu iðnir við að biðja bænirnar sínar.

Kennarinn, Jesmin Akther, hefur ekki viljað tjá sig um málið en að sögn lögreglunnar fór hún í felur eftir að skólanum fóru að berast kvartanir frá foreldrum. Atvikið átti sér stað síðasta þriðjudag og hlutu fjórtán stúlkur á aldrinum 8-12 ára brunasár vegna þessarar refsingar Akther.

Líkamsrefsingar í menntastofnunum voru bannaðar í Bangladess árið 2010.

„Í kjölfar ábendingar réðumst við til inngöngu í hús í gamla hluta Dhaka og handtókum Jesmin Akther sem er sökuð um að hafa valdið brunasárum á fótleggjum nemenda sinna. Við höfum óskað eftir að hún verði í haldi lögreglunnar næstu sjö dagana,“ sagði lögregluþjónn í samtali við fréttamann BBC.

Í kjölfar mikillar fjölmiðlaumfjöllunar um málið í Bangladess hefur skólanum verið lokað tímabundið. EKki er talið að brunasárin séu alvarleg.

„Þetta var fyrsti dagurinn í skólanum eftir leyfi. Kennarinn okkar varð reiður þegar hún heyrði að við hefðum ekki verið dugleg að biðja í fríinu,“ sagði átta ára stúlka í samtali við BBC. „Svo bað hún aðstoðarmann sinn um að hita teininn og þrýsti honum upp að fótleggjum okkar. Sársaukinn var óbærilegur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert