Níu barnaníðingar dæmdir í 77 ára fangelsi samanlagt

Níu karlmenn sem í gær voru dæmdir sekir um barnaníð voru dæmdir í alls 77 ára fangelsi í héraðsdómi í bresku borginni Liverpool í morgun.

Mennirnir voru dæmdir fyrir að hafa beitt ungar stúlkur, allt niður í þrettán ára, kynferðislegu ofbeldi.

Mennirnir, sem allir eru frá Pakistan, fyrir utan einn sem er frá Afganistan, fengu fjögurra ára til nítján ára fangelsisdóma, samkvæmt frétt Sky.

Dómarinn, Gerald Clifton, sagði er hann las upp dóminn að mennirnir hafi allir farið með fórnarlömb sín eins og þau væru einskis virði og án allrar virðingar. Ein ástæða þess sé sú að fórnarlömbin hafi ekki tilheyrt samfélagi þeirra né trú. Einhverjir þeirra hafi sagt er þeir voru handteknir að kynþáttahatur hafi ráðið ferðinni við handtökuna. Að sögn dómarans er ekkert hæft í þeirri fullyrðingu því það sem hafi ráðið för hjá glæpamönnum sé losti og græðgi.

Leiðtogi glæpahringsins var dæmdur í 19 ára fangelsi fyrir samsæri, nauðganir, kynferðislegt ofbeldi og mansal. Leiðtoganum var úthýst úr réttarsal við réttarhöldin, sem stóðu yfir í 11 vikur, eftir að kann kallaði dómarann „rasista drullusokk“.

Hér er hægt að lesa nánar um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert