Eyddu 10 heilbrigðum fóstrum

Úr safni.
Úr safni. Reuters

Ljósmæður og stjórnendur við norska ríkissjúkrahúsið í Ósló greindu frá því í fyrra að þau óttuðust að ólögmætar fóstureyðingar hefðu verið framkvæmdar á sjúkrahúsinu. Málið endaði á borði norska landlæknisembættisins sem segir að áfrýjunarnefnd, sem tekur ákvörðun um fóstureyðingar seint á meðgöngu, hafi samþykkt 10 ólögmætar fóstureyðingar.

Norska ríkisútvarpið (NRK) fjallar um málið og segir frá því að ljósmæðurnar hafi orðið að framkvæma allar fóstureyðingar sem áfrýjunarnefndin lagði blessun sína yfir. Ljósmæðurnar voru hins vegar ekki sáttar við allar ákvarðanir nefndarinnar.

Fram kemur á vef NRK að sum fóstur, sem ljósmæðurnar áttu að eyða, hafi verið jafn stór og fyrirburar sem spítalinn geri allt til að halda lífinu í. Í sumum tilfellum sló hjarta þeirra í 45 til 90 mínútur eftir að þau voru fjarlægð úr móðurkviði.

Í maí í fyrra gerðu ljósmæðurnar yfirmönnum sínum grein fyrir því að þær höfðu eytt heilbrigðu sex mánaða gömlu fóstri. Þær fóru fram á að þetta yrði í síðasta sinn sem þeim yrði gert að framkvæma slíka fóstureyðingu.

Yfirmenn ljósmæðranna óttuðust að sjúkrahúsið hefði með þessu brotið norsk lög.

Sjö mánuðum eftir að ljósmæðurnar stigu fyrst fram til að segja frá þessu skrifuðu 54 bréf sem var sent norsku konungsfjölskyldunni, heilbrigðisráðuneytinu og norska landlæknisembættinu sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjunarnefndin hafi túlkað lögin ranglega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert