Lífstíðarfangelsi fyrir að blinda unnustu sína

Breskur karlmaður var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að blinda unnustu sína en hann krækti úr henni augun.

Shane Jenkin, 33 ára, réðst á barnsmóður sína, Tinu Nash, á heimili þeirra í bænum Hayle í Cornwall í apríl í fyrra. Eftir að hafa blindað hana hélt hann áfram árásinni þar til hún missti meðvitund og meðal annars nefbraut hana og kjálkabraut.

Að sögn Nash sagði Jenkin við hana eftir árásina að þetta hefði allt verið henni að kenna og hans biði tuttugu ára fangelsi fyrir árásina; „Þú ert blind og börn þín eldast. Þetta er allt þér að kenna.“

Það var ekki fyrr en eftir hálfan sólarhring sem hann heimilaði að hún yrði flutt á sjúkrahús. En þetta er ekki í eina skiptið sem hann réðst á sambýliskonu sína því á árinu 2011 réðst hann níu sinnum á hana áður en hann blindaði hana í apríl það sama ár.

Kvöldið sem Nash varð fyrir árásinni vaknaði hún við að Jenkin sat ofan á henni og reyndi að kyrkja hana og við réttarhöldin sagðist hún halda að hann hefði ætlað að myrða hana.

Gerð var tilraun til að bjarga sjón á öðru auga hennar en hún skilaði ekki árangri og er Nash algerlega blind í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert