Grikkir reyna enn stjórnarmyndun

Leiðtogar þriggja stærstu stjórnmálaflokka Grikklands mættu til fundar með forseta landsins, Carolos Papoulias, nú árla dags þar sem ræddur er möguleikinn á því að þeir myndi neyðarstjórn svo komast megi hjá nýjum þingkosningum.

Þetta eru leiðtogar flokkanna Nýtt lýðræði, íhaldsflokks Grikkja, Pasok, sem er flokkur sósíalista, og Syriza, sem er vinstriflokkur.

Sá síðastnefndi vill hafna öllum lánveitingum frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Íhaldsflokkurinn vill að bráðabirgðastjórn til tveggja ára verði mynduð. Flokkurinn vill að Grikkland taki áfram þátt í evrusamstarfinu. 

Grikkir gengu að kjörborðinu síðastliðinn sunnudag, 6. maí, og kusu til þings. Ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn, en fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar til þess undanfarna viku. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert