Hollande á eignir metnar á rúma milljón evra

Nýkjörinn forseti Frakklands, Francois Hollande birti í kosningabaráttunni upplýsingar um eignir sínar og skuldir. Fasteignir hans eru metnar á 1,17 milljónir evra, 191 milljón króna, samkvæmt frétt Bloomberg sem birti frétt um málið fyrir tveimur dögum. Hollande, sem lýsti sér sem venjulegum manni í kosningabaráttunni, tekur við embætti forseta á morgun.

Hollande á 130 fm hús í bænum Mougins í Suður-Frakklandi sem er metið á 800 þúsund evrur, samkvæmt Journal Officiel de la Republique Francaise. Hann á einnig hlut í tveimur íbúðum í Cannes í Suður-Frakklandi.

Bloomberg birtir einnig upplýsingar um innistæður Hollande á bankareikningum en hann á alls 8.260 evrur, 1,3 milljónir króna, á þremur bankareikningum, tveir þeirra eru í Société Générale og einn í La Banque Postale, samkvæmt opinberum upplýsingum sem Hollande birti í tengslum við framboð sitt.

Hann á húsgögn sem metin eru á 15 þúsund evrur, er með fimm lán, alls 225 þúsund evrur. Hollande á engin hlutabréf né verðmæt listaverk eða skartgripi. Hann á lífeyrissparnað upp á tæpar 3.550 evur.

Lífeyrissparnaður Sarkozys um 425 milljónir króna

Einhverjir fjölmiðlar hafa borið saman eignir Hollandes og Nicolas Sarkozys, fráfarandi forseta, en hann á hluti eins og listmuni og skartgripi sem metnir eru á 100 þúsund evrur, 16,3 milljónir, lífeyrissparnað upp á 2,6 milljónir evra, 425 milljónir króna og tæpar 60 þúusnd evrur, 9,8 milljónir króna á bankareikningi.

Hollande leigir íbúð í París og ferðast um á bifhjóli en á morgun verður breyting á þegar hann flytur í Elysée-höll og fær forsetalaun. Þegar Sarkozy tók við embætti forseta árið 2007 samþykkti franska þingið að hækka laun forseta um 170%, úr 7 þúsund evrum á mánuði í 19 þúsund evrur eða 228 þúsund evrur, 37 milljónir króna, á ári. Eru það sambærileg laun við það sem forsætisráðherra Frakklands fær. Hollande hefur hins vegar lýst því yfir að hann vilji lækka laun sín og allra ráðherra um 30% þegar hann tekur við embætti.

Elysee höll
Elysee höll AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert