Gríski harmleikurinn heldur áfram

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS. AFP

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir að vinstriflokkarnir í Grikklandi verði að horfast í augu við þann niðurskurð sem nauðsynlegur sé, eigi Grikkir að komast upp úr þeim efnahagslega öldudal sem þeir eru nú í.

Lagarde sagði í viðtali við bresku sjónvarpsstöðina ITV að það kostaði að tilheyra evrusvæðinu.

Hún var spurð sérstaklega um þá afstöðu vinstriflokkanna í Grikklandi að hafna þeim tillögum og skilyrðum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið hafa sett Grikkjum varðandi 130 milljarða evra lán, en skilyrðin fela meðal annars í sér stórfelldan opinberan niðurskurð.

„Til hvers eru þau á móti þessu? Það er engin önnur leið,“ sagði Lagarde.

Alexis Tsipras, leiðtogi vinstriflokksins Syriza, sagði í dag að það væri misskilningur að vinstriflokkarnir vildu að Grikkir yfirgæfu evrusvæðið.

Hann biðlaði til Frakka og Þjóðverja um að láta af þeirri stefnu sinni að Grikkir yrðu að skera niður, þeir ættu að standa með grískum almenningi.

Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza flokksins í Grikklandi.
Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza flokksins í Grikklandi. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert