Bandalag múslíma lýsir yfir sigri

Muhammed Mursi, forsetaefni Bræðralags múslíma, er með flest atkvæði þegar búið er að telja um helming atkvæða í forsetakosningunum sem fram fóru í Egyptalandi í gær og fyrradag.

Bræðralag múslíma fékk einnig flest atkvæði í þingkosningum í Egyptalandi fyrr á árinu.

Í tilkynningu frá Bræðralagi múslíma er Mohammed Mursi með 30,8% atkvæða en Ahmed Shafik, sem var forsætisráðherra um hríð er með 22,3% atkvæða. Um er að ræða fyrri umferð kosninganna.

Forsetakosningarnar marka tímamót í landinu en þetta er í fyrsta sinn sem egypska þjóðin fær tækifæri til að kjósa sér forseta með lýðræðislegum hætti. Liðlega 50 milljónir manna eru á kjörskrá.

Hosni Mubarak, fyrrverandi forseti, sem steypt var í fyrra, er nú í fangelsi og gæti hlotið dauðadóm fyrir brot sín.

Forsetinn er nær einráður samkvæmt gildandi stjórnarskrá. Ætlunin er að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá. Nær útilokað er talið að nokkur fái yfir helming greiddra atkvæða strax í fyrri umferð og verður því kosið aftur milli tveggja efstu í seinni umferðinni í júní.

Ríkisstjórn sem bráðabirgðaráð herforingja skipaði er enn við völd þótt þegar sé búið að kjósa nýtt þing en herforingjarnir hafa lofað að fara frá völdum þegar nýr forseti hafi verið kjörinn.

Mohammed Mursi
Mohammed Mursi AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert