Þjóðverjar vilja Grikki af evrusvæðinu

Reuters

Meirihluti Þjóðverja er andvígur því að sett verði á laggirnar evruskuldabréf sem einstök evruríki geti gefið út á ábyrgð allar ríkjanna á evrusvæðinu en rætt hefur verið um útgáfu slíkra bréfa sem lið í að koma efnahagsmálum svæðisins aftur á rétta braut.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrir þýsku sjónvarpsstöðina ZDF sem birtar voru í dag. Samkvæmt þeim eru 79% Þjóðverja andvíg evruskuldabréfum sem er í samræmi við afstöðu þýskra stjórnvalda til málsins. 14% eru hins vegar hlynnt útgáfu slíkra skuldabréfa.

Þá kemur ennfremur fram í niðurstöðunum að meirihluti Þjóðverja hafi efasemdir um aðild Grikklands að evrusvæðinu en 60% þeirra vilja Grikki af svæðinu á meðan tæpur þriðjungur, eða 31%, sögðust hlynnt því að Grikkir yrðu þar áfram.

Í frétt fréttavefsins Eubusiness.com kemur fram að í sambærilegri skoðanakönnun í nóvember síðastliðnum hafi 49% Þjóðverja verið andvíg því að Grikkir yrðu áfram á evrusvæðinu.

Samtals náði könnunin til 1.312 manns en hún var framkvæmd dagana 22.-24. maí síðastliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert