Vandi skekur Vatíkanið

Úr Vatikaninu, Péturskirkjan.
Úr Vatikaninu, Péturskirkjan. Ómar

Páfagarður reynir enn að finna út hver standi á bak við umfangsmikinn leka á upplýsingum úr Vatíkaninu undanfarið. Trúnaðarskjölum um viðkvæm mál er varða kirkjuna hefur markvisst verið lekið í fjölmiðla og hafa menn nú þegar verið handteknir án þess að vitað sé með nokkurri vissu hver sé sökudólgurinn. 

Í gær staðfesti Páfagarður að einkaþjónn Benedikts XVI páfa, Paolo Gabriele, hefði verið handtekinn en trúnaðarskjöl fundust á heimili hans. Fáir virðast þó hafa trú á að þjónninn sé á bak við lekann en til þess þykir hann allt of trúr páfanum og öðrum starfsmönnum Vatíkansins. Öðru máli gegnir hins vegar um hvort hann gæti hafa verið tilbúinn til að ganga erinda einhvers háttsetts innan kirkjunnar. Hafa ítalskir fjölmiðlar undanfarið farið mikinn í vangaveltum sínum um hvar sökudólginn gæti verið að finna og hallast menn að því að um einhvern á æðri stigum hljóti að vera að ræða.

Benedikt XVI páfi skipaði í síðasta mánuði sérstaka nefnd til að rannsaka lekann sem staðið hefur allt frá í janúar á þessu ári. Í gögnunum sem lekið hefur verið er að finna upplýsingar um kynferðisbrotamál, spillingu, óstjórn og innbyrðisátök innan Vatíkansins.

Handtaka einkaþjónsins fylgdi í kjölfar uppsagnar bankastjóra banka Vatíkansins, Ettores Gottis Tedeschis, sem einnig hafði verið ásakaður um að standa að baki lekanum. Var ástæða uppsagnar bankastjórans m.a. talin sú að honum mistókst að bæta ímynd bankans sem þótt hefur tákngerving ógagnsæis og hneykslismála í Páfagarði.

Dagblaðið La Repubblica hefur einnig sett fram þá kenningu að kvenmaður sé nátengdur málinu, sem nefnt hefur verið „Vatileaks“ af gárungum. Segja þeir það konu sem hafi upphaflega starfað fyrir Jóhannes Pál II en starfi áfram fyrir Jósep Ratzinger og sé nátengd inn í Postulahöllina þar sem páfinn býr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert