Telja Breivik ekki hafa átt viðorðsmenn

Fjöldamorðinginn Anders Behring Brevik í réttarsal.
Fjöldamorðinginn Anders Behring Brevik í réttarsal. Reuters

Norska lögreglan hefur útilokað þann möguleika að fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik hafi átt sér vitorðsmenn þegar hann myrti 77 manns í júlí á síðasta ári í Ósló og á eyjunni Útey í nágrenni borgarinnar. Lögreglan hafnar þar með fullyrðingum Breiviks um að til staðar sé hreyfing sem ég reiðubúin að láta til skarar skríða á ný.

„Við teljum okkur viss um þessa niðurstöðu,“ er haft eftir Kenneth Wilberg, lögreglustjóra Oslóborgar, á fréttavefnum Thelocal.no. Hann segir engin sönnunargögn í málinu benda til þess að Breivik hafi átt sér viðorðsmenn en réttarhöldin yfir honum standa enn yfir í Ósló vegna fjöldamorðanna.

Breivik hefur haldið því fram, bæði í yfirlýsingu sem hann skildi eftir á netinu áður en hann framdi fjöldamorðin og í yfirheyrslum lögreglu, að hann tilheyrði evrópskri hreyfingu, Musterisriddurunum, sem hefði verið stofnuð í London árið 2002 með það að markmiði að vernda Evrópu frá fjölmenningu og yfirvofandi innrás múslima.

Fram kemur í fréttinni að Breivik hafi þegar viðurkennt að hann hafi meðal annars blásið upp eigin stöðu innan hreyfingarinnar og fjölda meðlima. Hins vegar fullyrðir hann að fjölmargar sellur séu til í tengslum við hreyfinguna sem séu reiðubúnar að fremja frekari hryðjuverk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert