Byssumaðurinn í Seattle skaut sig til bana

Karlmaður sem hóf skothríð inni á kaffihúsi, Café Racer, nærri háskólanum í Seattle fyrr í dag skaut sjálfan sig til bana þegar lögreglumenn nálguðust hann. Þrír liggja í valnum eftir manninn og tveir eru alvarlega særðir á sjúkrahúsi.

Maðurinn gekk inn á kaffihúsið kl. 11 fyrir hádegi að staðartíma og hleypti af skammbyssu sinni. Hann hæfði fimm manns sem voru inni í kaffihúsinu. Tveir karlmenn voru úrskurðaðir látnir á vettvangi og kona lést af sárum sínum á sjúkrahúsi. Tveir karlmenn liggja þungt haldnir á Harborview-sjúkrahúsinu.

Um hálftíma síðar var tilkynnt að maður hefði rænt bifreið í miðborg Seattle og skotið konu sem var undir stýri. Enn á eftir að staðreyna að um sama mann sé að ræða.

Á blaðamannafundi sem haldinn var sagði aðstoðarlögreglustjórinn James Pugel að byssumaðurinn væri látinn. Hann hefði svipt sig lífi með skotvopni sínu þegar lögreglumenn nálguðust hann á gangstétt í vesturhluta borgarinnar.

Skotárásirnar eru enn í rannsókn og ekkert liggur fyrir um ástæður þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert