Mubarak dæmdur í ævilangt fangelsi

Dómstóll í Egyptalandi dæmdi í dag, Hosni Mubarak, fyrrverandi forseta Egyptalands, í ævilangt fangelsi fyrir að hafa gefið öryggissveitum sínum fyrirskipun um að skjóta á mannfjölda sem mótmælti stjórn hans.

Um 850 manns féllu fyrir hendi öryggissveita Mubaraks í 18 daga mótmælum á síðasta ári áður en hann krökklaðist frá völdum. Hann sagði af sér forsetaembætti eftir 30 ára valdaferil og var í kjölfarið handtekinn og ákærður. Mubarak er 84, ára.

Habib al-Adly, fyrrverandi innanríkisráðherra, var einnig dæmdur í lífstíðar fangelsi. Ákærur gegn sonum Mubaraks, Alaa og Gamal, var hins vegar vísað frá.

Hróp og köll urðu í réttarsalnum þegar dómari var að lesa upp dómsorðið. Hann fyrirskipaði í kjölfarið að áhorfendum yrði vísað út.

Mubarak er fyrstur af fyrrverandi leiðtogum Egyptalands til að vera dreginn fyrir rétt.

Ahmed Refaat forseti dómsins sagði að réttarhöldin, sem stóðu í 10 mánuði, hefðu verið réttlát. Hann sagði að Egyptar hefðu þjáðast í þau 30 ár sem Mubarak var við völd.

Í réttarhöldunum sögðu vitni frá því að þeim hefðu verið fyrirskipað að hlaða byssur sínar og skjóta á mótmælendur.

Hosni Múbarak var ekið á sjúkrarúmi inn í dómssalinn.
Hosni Múbarak var ekið á sjúkrarúmi inn í dómssalinn. AFP
Mubarak var forseti Egyptalands frá 1981-2011.
Mubarak var forseti Egyptalands frá 1981-2011. AFP
Það eru ekki margir Egyptar sem styðja Mubarak, en þeir …
Það eru ekki margir Egyptar sem styðja Mubarak, en þeir eru þó til og sýndu honum stuðning fyrir utan dómshúsið. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert