Pútín mun ræða við Íransforseta

Vladimir Putin, forseti Rússlands.
Vladimir Putin, forseti Rússlands. AFP

Forseti Rússlands, Vladimír Pútín mun hitta forseta Írans, Mahmoud Ahmadinejad, á leiðtogafundi í Peking í næstu viku. Þungi er að færast í málin vegna kjarnorkuáætlunar Írana og blönduðu Rússar sér í umræðuna í dag.

„Að hitta Ahmadinejad mun gefa Pútín persónulegt tækifæri til þess að setja puttann á púlsinn varðandi málefni Írans og hvernig framvindan er þar á bæ,“ sagði Yury Ushakov, embættismaður í utanríkisráðuneyti Rússa, við fjölmiðla í dag.

Ushakov sagði að leiðtogarnir tveir hefðu samþykkt að hittast í gegnum síma.

Fundurinn kemur til vegna þess að Rússar munu hýsa næsta samningafund, dagana 18. - 19. júní, þar sem reyna á enn einu sinni að ná samkomulagi í viðræðum um lausn á kjarnorkuáætluninni, en hún hefur mætt mikilli andstöðu alþjóðasamfélagsins.

Fundurinn í Moskvu er framhald af fundi sem var haldinn í síðasta mánuði í Bagdad þar sem fulltrúar stórríkjanna, Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Kína, Rússlands og Þýskalands, mættu samningamönnum Írana og ræddu áhyggjur umheimsins af því að auðgun úrans í Íran væri vegna framleiðslu á kjarnorkusprengjum.

Viðræðurnar skiluðu þó litlu þessa tvo daga, öðru en því að næsti fundur var ákveðinn í Moskvu.

Líkt og vesturveldin voru Rússar ekki nógu ánægðir með útkomuna í Bagdad, að öðru leyti en því að vilji er beggja vegna samningaborðsins um að halda viðræðunum áfram, sagði Ushakov.

Rússar hafa aldrei samþykkt hugmyndir um hernaðaraðgerðir gegn Írönum, eitthvað sem Ísraelar og Bandaríkjamenn hafa aldrei útilokað, og hafa sagt að slíkt myndi hafa ómæld neikvæð áhrif á ástandið í Mið-Austurlöndum.

Í ferð sinni í Peking mun Pútín einnig hitta forseta Afganistan og forseta Kína og fleiri áhrifamenn þar í landi.

Mahmoud Ahmadinejad forseti Írans.
Mahmoud Ahmadinejad forseti Írans. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert