Fann loks líkamsleifar föður síns

Franskur andspyrnumaður í síðari heimsstyrjöldinni. Úr myndasafni.
Franskur andspyrnumaður í síðari heimsstyrjöldinni. Úr myndasafni. Wikipedia

Belgísk kona fann nýverið líkamsleifar föður síns 68 árum eftir að hann var tekinn af lífi af þýskum nasistum. Með aðstoð sagnfræðings tókst konunni, Rose de Hepcé, loks að finna líkamsleifarnar og komast að raun um örlög föður síns.

Faðir hennar, Charles de Hepcé, gekk árið 1940 til liðs við andspyrnuhreyfinguna gegn hernámsliði nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Hann starfaði sem flugmaður og skipulagði meðal annars baráttu gegn nasistum í Pýrenea-fjöllunum á landamærum Frakklands og Spánar.

Árið 1944 var hann handtekinn af nasistum og færður í fangelsi í frönsku borginni Toulouse. Í framhaldi af því var síðan farið með hann ásamt 14 öðrum andspyrnumönnum út í skóginn Bois de la Reulle norður af borginni þar sem þeir voru skotnir til bana.

Haft er eftir Rose de Hepcé á fréttavefnum Thelocal.fr að hún hafi safnað upplýsingum um örlög föður síns ásamt sagnfræðingnum Georges Muratet og allt hafi bent til þess að faðir hennar væri grafinn á þeim stað sem jarðneskar leifar hans síðan fundust. DNA-rannsókn á þeim og sýni úr henni staðfestu síðan að svo væri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert