Breivik eins og mannætan Hannibal

Breivik í réttarsalnum í Osló.
Breivik í réttarsalnum í Osló. Soerboe, Krister

„Fundurinn með Breivik var næstum því eins og að hitta Hannibal,“ segir Eirik Johannessen sálfræðingur en þar á hann við mannætuna úr hryllingsmyndinni „Silence of the Lambs“. Johannesen ræddi við Breivik í 26 klukkustundir í fangelsinu en hann var fenginn af Breivik til að koma honum til varnar í því að hann væri ekki geðveikur og væri metinn sakhæfur þegar hann drap 77 manns í höfuðborginni Ósló og í Útey á síðasta ári.

Enginn vafi leikur á að Breivik sé sekur en geðheilsa hans er enn til rannsóknar. Breivik heldur því enn fram að aðgerðir hans hafi verið nauðsynlegar til að fylgja þeirri hugmyndafræði sem hann aðhyllist.

„Í ljósi þeirrar hugmyndafræði sem hann aðhyllist tel ég ekki hægt að meðhöndla hann með meðferð eða lyfjum,“ segir Johannesen.

Margir sérfræðingar hafa lagt mismunandi mat á sakhæfi Breiviks, sumir telja hann ósakhæfan sökum geðveiki en aðrir sakhæfan.

Ef Breivik verður talinn sakhæfur gæti hann verið dæmdur til að sitja í fangelsi í 21 ár. Sá tími gæti verið framlengdur ef hann er enn talinn ógn við samfélagið. Ef hann hins vegar verður talinn ósakhæfur mun hann fá meðferð í geðheilbrigðiskerfinu, hugsanlega fyrir lífstíð.

Fimm dómarar munu kveða upp dóminn um sakhæfi hans annaðhvort 20. júlí eða 24. ágúst nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert