Læti eftir landsleik fyrrverandi erkifjenda

Lögreglan þurfti að beita táragasi í Varsjá í dag er átök brutust út á milli stuðningsmanna pólska landsliðsins annars vegar og þess rússneska hins vegar fyrir og eftir leik þjóðanna á EM í knattspyrnu. Að minnsta kosti 100 manns voru handteknir og einhverjir hlutu minniháttar meiðsl.

Þúsundir Rússa tók þátt í göngu í Varsjá í dag í tilefni af þjóðhátíðardegi lands síns. Lögreglan stóð vaktina, vígbúin, en fljótlega varð ljóst að allt stefndi í óefni.

Um 100 manns voru handteknir og margir særðust en 6.000 lögreglumenn voru á götunum af þessu tilefni. Stuðningsmenn pólska landsliðsins stóðu á brú og réðust að Rússunum í göngunni og endaði þetta með átökum milli hópanna.

Táragasi, gúmmíkúlum og vatni var m.a. beitt á óeirðaseggina.

Rússar og Pólverjar hafa lengi elt grátt silfur en Rússar hertóku Pólland fyrir meira en öld og réðu þar ríkjum í kalda stríðinu. Átökin eiga sér þó mun lengri sögu en Rússar tóku m.a. völdin í landinu um 1770 og stóð valdatíð þeirra þá í um 130 ár.

Leikur landsliðanna endaði með jafntefli, 1-1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert