Lík finnast í plastpokum

Lögreglan í Mexíkó er hörð í horn að taka.
Lögreglan í Mexíkó er hörð í horn að taka. AFP

Fjórtán illa farin lík fundust í yfirgefinni pallbifreið í Veracruz í austurhluta Mexíkó í dag. Lögreglan telur ljóst að málið tengist fíkniefnaglæpum þar í landi en reglulega berast óhugnanlegar fréttir sem þessar úr undirheimum Mexíkó.

Lögreglumenn fengu tilkynningu um grunsamlega bifreið en inni í henni fundu þeir nokkra stóra plastpoka sem innihéldu líkamsleifar alls fjórtán manna. Talið er að mennirnir hafi allir verið á þrítugsaldri.

Á vettvangi fundust einnig skilaboð sem þykja benda til þess að fíkniefnahringurinn Zetas hafi framið voðaverkin. Skilaboðin hafa ekki verið gerð opinber.

Fyrir rétt um viku fundust einnig fjórtán lík í yfirgefinni bifreið í borginni Ciudad Mante í norðausturhluta landsins. Þá fundust fjórtán lík til viðbótar fjórða maí sl. skammt frá landamærum Texas. Sama dag fundu lögreglumenn níu lík annars staðar í landinu.

Frá árinu 2006 hafa yfir 50.000 manns látið lífið í ofbeldisglæpum tengdum fíkniefnaheiminum í Mexíkó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert