Flytur loks nóbelsverðlaunaræðuna

Aung San Suu Kyi ferðast nú um Evrópu í fyrsta …
Aung San Suu Kyi ferðast nú um Evrópu í fyrsta sinn síðan 1988. AFP

Nóbelsverðlaunahafinn Aung Suu Kyi mun flytja nóbelsverðlaunaræðu sína í Ósló í dag. Það er ekki síst merkilegt fyrir þær sakir að rúmlega tuttugu ár eru síðan hún hlaut friðarverðlaun Nóbels.

Aung Suu Kyi, sem barist hefur fyrir lýðræðisumbótum í Búrma, hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1991. Þá treysti hún sér hins vegar ekki til að fara til Noregs að taka við verðlaununum því hún óttaðist að verða ekki hleypt aftur í heimaland sitt Búrma.

Suu Kyi var lengi haldið í stofufangelsi af stjórnvöldum í Búrma. Henni var þó sleppt árið 2010. Hún er nú á ferðalagi um Evrópu í fyrsta skiptið síðan árið 1988.

BBC hefur eftir Bente Erichsen, framkvæmdastjóra friðarstofnunar Nóbels, að norska þjóðin hafi beðið lengi eftir að fá Suu Kyi til Ósló að flytja ræðuna sem hún fékk ekki tækifæri til að flytja á sínum tíma.

„Ég held að þetta hafi mikla þýðingu fyrir fólkið í Búrma. Aung Suu Kyi hefur sigrað og getur nú komið til Noregs sem frjáls manneskja og flutt nóbelsverðlaunaræðuna og barist áfram fyrir lýðræðisumbótum í Búrma,“ sagði Erichsen við BBC.

Aung Suu Kyi mun einnig funda með útlægu fólki frá Búrma sem hefur flutt til Noregs. Þá mun hún hitta forstætisráðherrann Jens Stoltenberg, fulltrúa mannréttindasamtaka og snæða kvöldverð með konungsfjölskyldunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert