Stefnir Jeb Bush á Hvíta húsið?

Jeb Bush, fyrrverandi ríkisstjóri Flórída.
Jeb Bush, fyrrverandi ríkisstjóri Flórída. Wikipedia

Fjallað er um það á fréttavef Reuters í dag hvort Jeb Bush, fyrrverandi ríkisstjóri í Flórída og bróðir George W. Bush fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sé hugsanlega að velta því fyrir sér að bjóða sig fram í forsetaembættið árið 2016. Þykir ýmislegt benda til þess þó að hann sjálfur hafi þvertekið fyrir það til þessa.

Talsverð umræða hefur verið um það hver pólitísk framtíð Bush kynni að verða síðan hann lét af embætti ríkisstjóra árið 2007 og ýmsar kenningar verið á lofti í því sambandi. Ef hann tæki ákvörðun um að sækjast eftir embætti forseta Bandaríkjanna yrði hann sá þriðji í sinni fjölskyldu til þess að gegna því en bæði faðir hans, George H. W. Bush og bróðir George W. Bush hafa gegnt því.

Haft er meðal annars eftir Jamie Chandler, stjórnmálafræðingi við Hunter College í New York, að Bush sé að fylgja aðferðafræði sem sé þekkt hjá þeim sem stefna á forsetaembættið sem felist einkum í því að undirbúa jarðveginn tímanlega með því að vekja meiri athygli á sér og koma í vaxandi mæli fram á fundum og flytja þar ræður.

Fram kemur að ef frambjóðandi repúblikana vegna forsetakosninganna í haust, Mitt Romney, verði næsti forseti sé líklegt að Bush fái sæti í ríkisstjórn hans. Hugsanlega þá sem menntamálaráðherra. Þá yrði hann að bíða þar til 2020 með að bjóða sig fram til forseta ef hugur hans stefni til þess en samkvæmt lögum mega forsetar aðeins sitja tvö kjörtímabil í Bandaríkjunum. Þá yrði Bush hins vegar orðinn 68 ára gamall sem gæti sett strik í reikninginn.

Hins vegar gætu möguleikar Bush aukist á því að setjast að í Hvíta húsinu ef Romney tapaði fyrir Barack Obama Bandaríkjaforseta og Obama sæti annað kjörtímabil. Þá gæti Bush hugsanlega látið verða af því að bjóða sig fram í kosningunum 2016 sem áður segir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert