Vill að ESB fái ríkisstjórn og forseta

Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schäuble.
Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schäuble. Reuters

 Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schäuble, vill að ríki Evrópusambandsins framselji aukið vald til sambandsins á „mikilvægum pólitískum sviðum án þess að ríkisstjórnir landanna geti stöðvað ákvarðanir“. Þetta kemur fram í viðtali við ráðherrann í þýska tímarinu Der Spiegel í dag samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar.

Í frétt AFP segir að ummæli Schäuble komi í kjölfar ítrekaðra yfirlýsinga Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, um að aukinn Evrópusamruna þurfi til þess að takast á við efnahagserfiðleikana innan ESB en ekki minni. „Til þessa hafa ríki ESB nær alltaf haft síðasta orðið. Það gengur ekki lengur,“ er haft eftir Schäuble.

Þá kemur fram í umfjöllun Der Spiegel að Schäuble sé hlynntur því að breyta framkvæmdastjórn ESB í raunverulega ríkisstjórn, styrkja Evrópuþingið í sessi og kjósa í almennri kosningu forseta sambandsins. Hann neitar því þó að ESB yrði þar með sambandsríki sambærilegt við Bandaríkin eða Þýskaland heldur yrði um að ræða sérstaka útfærslu.

Schäuble varaði einnig við því ef evrusvæðið liðaðist í sundur. Hann sagði að ef það gerðist myndu koma fram efasemdir um margt annað sem sett hafi verið á laggirnar undir merkjum Evrópusamrunans eins og innri markað ESB og frjálsa för fólks um Evrópu. „En að ESB liðist í sundur er út í hött. Heimurinn er að færast saman og að hvert ríki í Evrópu stæði á eigin fótum? Það getur ekki gerst, má ekki gerast og skal ekki gerast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert