Erdogan: Árásinni verður svarað

Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, segir að stjórnvöld muni láta sverfa til stáls vegna tyrkneskrar herþotu sem Sýrlendingar skutu niður í alþjóðlegri lofthelgi.

„Tyrkland mun beita rétti sínum, samkvæmt alþjóðlegum lögum, og grípa til nauðsynlegra aðgerða og ákveða tíma, stað og aðferð sem gripið verður til gagnvart þessu óréttlæti,“ sagði Erdogan við tyrkneska þingið í dag.

Búið er að auka viðbúnaðarstig hersins í landinu og að sögn forsætisráðherrans verður litið á það sem beina hótun ef sýrlenskir hermenn ógna landamærum Tyrklands.

Hann segir enn fremur að stjórn Bashars al-Assads Sýrlandsforseta sé bein aðsteðjandi ógn gagnvart Tyrklandi.

Atlantshafsbandalagið (NATO) hefur haldið fund til að ræða málið sérstaklega. Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, hefur fordæmt árásina og segir það óviðunandi að Sýrlendingar hafi skotið niður tyrkneska herþotu. Rasmussen hefur auk þess lýst yfir stuðningi við stjórnvöld í Tyrklandi.

Stjórnvöld í Sýrlandi halda því fram að herþotan, sem er af gerðinni F-4 Phantom, hafi verið skotin niður í sýrlenskri lofthelgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert