Rússar styðja áfram við Assad

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fundi sínum með sýrlenskum stjórnarandstæðingum …
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fundi sínum með sýrlenskum stjórnarandstæðingum í dag. AFP/ NATALIA KOLESNIKOVA

Yfirvöld í Moskvu tilkynntu í dag að þau ætluðu sér að standa við samninga um afhendingu loftvarnakerfa til ríkisstjórnar Sýrlands. Þessar fréttir berast sama dag og fulltrúar stjórnarandstæðinga hittu Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, en að honum loknum var sagt að afstaða Rússa væri óbreytt.

Fulltrúar frá sýrlenska þjóðarráðinu, einum helsta hópi stjórnarandstæðinga í Sýrlandi, hittu Sergei Lavrov í dag í Moskvu og reyndu að sannfæra Rússa um að hætta stuðningi við Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. Þeir sögðu hins vegar eftir fundinn að þeim hefði mistekist að fá Rússa til að skipta um skoðun. Abdel Basset Sayda, leiðtogi þjóðarráðsins, sagði að ráðið hafnaði algjörlega stefnu Rússlands, þar sem hún leyfði ofbeldinu að halda áfram óáreittu.

Rússar hafa lagt áherslu á að mynduð verði þjóðstjórn með þátttöku allra stríðandi fylkinga og að það verði komið undir Sýrlendingum sjálfum hvort Assad víki úr forsetastóli. Sayda sagði við Lavrov á fundi þeirra að átökin í Sýrlandi væru ekki einföld deila milli andstöðu og ríkisstjórnar heldur stjórnarbylting og því væri ekki hægt að hugsa sér að Assad yrði áfram við völd.

Samkvæmt Vjatsjeslav Dzirkaln, næstráðanda í rússnesku alríkisstofnuninni um samvinnu á sviðum hernaðartækni, hefur Rússland skyldum að gegna við Sýrland um afhendingu á loftvarnarkerfum samkvæmt samningum frá árinu 2008. Dzirkaln bætti við: „Verið er að uppfylla þær skyldur og þær verða uppfylltar.“ Hann lagði áherslu á að vopnin sem Rússar væru að afhenda Sýrlendingum væru aðallega hugsuð til þess að verjast árásum frá utanaðkomandi ríkjum. Þá væri ekki á döfinni að undirrita neina nýja samninga um vopnasölu á þessu stigi. Hann tók þó fram að á engan hátt ætti að túlka það sem svo að Rússar tækju þátt í banni á sölu vopna til Sýrlandsstjórnar.

Að minnsta kosti 82 manns féllu í átökunum í Sýrlandi í gær, þar af 30 óbreyttir borgarar. 

Abdel Basset Sayda, leiðtogi Sýrlenska þjóðarráðsins yfirgefur utanríkisráðuneyti Rússlands í …
Abdel Basset Sayda, leiðtogi Sýrlenska þjóðarráðsins yfirgefur utanríkisráðuneyti Rússlands í Moskvu í dag. AFP/ NATALIA KOLESNIKOVA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert