„Í höndum egypsku þjóðarinnar“

Frá fundi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forseta Egyptalands í dag.
Frá fundi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forseta Egyptalands í dag. AFP

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú stödd í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, en tilefni komu hennar er að funda um þróun lýðræðis í landinu við Mohammed Morsi forseta. Clinton mun einnig eiga fundi með fleiri ráðamönnum í heimsókn sinni.

Á fundi með blaðamönnum sem haldinn var í tilefni heimsóknarinnar sagði utanríkisráðherrann Bandaríkin standa þétt að baki egypsku þjóðinni og undirstrikaði stuðning Bandaríkjastjórnar við lýðræðisþróun í landinu.

„Við viljum eiga góð samskipti og við viljum styðja þær lýðræðislegu umbætur sem náðst hafa með hugrekki og fórn egypsku þjóðarinnar,“ sagði Hillary Clinton utanríkisráðherra á blaðamannafundinum.

Ljóst má vera að heimsókn Clinton til Egyptalands og yfirlýsingar hennar á fundinum eru áminning um að Bandaríkin sýni ástandinu í Egyptalandi mikinn áhuga.

Clinton sagði einnig að lýðræði væri ekki auðfengið og kostaði bæði fórnir og mikla vinnu.

„En við vitum að valið er ekki í höndum Bandaríkjanna, það er í höndum egypsku þjóðarinnar að taka ákvörðun.“

Búist er við að heimsókn Clinton taki tvo daga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert