Gekk út úr fangelsi í Danmörku

Danska lögreglan leitar nú mannsins sem strauk úr fangelsi á …
Danska lögreglan leitar nú mannsins sem strauk úr fangelsi á Jótlandi. AFP

Dæmdum glæpamanni tókst að sleppa úr fangelsi í Danmörku síðastliðinn föstudag með því að telja fangaverði trú um að hann mætti fara. Fanginn gekk því út sem frjáls maður væri og tók því næst  leigubíl frá fangelsinu.

Fanginn sem um ræðir heitir Mohammed Figuigui og er leiðtogi glæpaklíku í Danmörku. Þótt ótrúlegt megi virðast náði hann að telja fangaverði trú um að hann ætti að fá helgarfrí. Vörðurinn lét glepjast þar sem annar fangi átti að fá helgarleyfið og trúði Figuigui þegar hann sagðist vera fanginn sem fríið ætti.

Fangavörðurinn uppgötvaði að hann hefði gert mistök um 20 mínútum eftir að hann hafði hleypt Figuigui út þegar fanginn sem raunverulega átti rétt á fríhelginni bað um að komast út. Fangaverðinum hefur nú verið vikið frá störfum.

Fangelsið sem um ræðir er á Austur-Jótlandi og á að vera það öruggasta og nútímalegasta í Danmörku. Þar starfa 260 manns en fangarnir eru 228.

Alþjóðleg handtökutilskipun hefur nú verið gefin út á hendur Figuigui en hann kann að hafa flúið til Marokkó. Þetta var í þriðja skiptið sem Figuigui reyndi að flýja. Hann var dæmdur í 8 ára fangelsi fyrir morðtilraun en hann reyndi að drepa mann sem hafði orðið vitni að glæp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert