Mótmæli á götum Spánar

Fólk fjölmennti út á götur Spánar fyrr í kvöld til …
Fólk fjölmennti út á götur Spánar fyrr í kvöld til að mótmæla aðgerðum stjórnar landsins í ríkisfjármálum. AFP

Spánverjar fjölmenntu út á götur borga landsins í kvöld til að mótmæla aðgerðum yfirvalda sem miða að því að draga úr halla á rekstri spænska ríkisins.

Verkalýðsfélög höfðu boðað til allsherjarmótmæla á allt að 80 stöðum víða um land í kvöld en mótmæli í einhverri mynd hafa nánast verið daglegt brauð í landinu undanfarinn mánuð.

Í síðustu viku tilkynnti forsætisráðherrann Marioan Rajoy um aðgerðir í ríkisfjármálum sem miða að því að spara allt að 65 milljarða evra við rekstur spænska ríksisins.

Á meðal aðgerða sem boðaðar eru er afnám jólabónuss ríkisstarfsmanna sem samsvarar allt að 7% lækkun launa á ársgrundvelli. Áður höfðu laun opinberra starfsmanna verið lækkuð árið 2010 og voru fryst í kjölfarið. Þá hafa atvinnuleysisbætur einnig lækkað auk þess sem virðisaukaskattur hefur verið hækkaður.

Er almenningur ævareiður og finnst að sér vegið. Finnst fólkinu skuldinni á bágri stöðu þjóðarbúsins skellt á það á meðan bankar og efnaðir einstaklingar sleppa með skrekkinn. „Við þénum minna og minna á sama tíma og verðið á öllu hækkar,“ sagði Cristina Blesa, 55 ára gamall kennari sem tekur þátt í mótmælunum, við AFP-fréttaveituna.

Fjárlagaráðherra landsins, Cristobal Montoro, hefur reynt að verja aðgerðirnar og sagt þær nauðsynlegar til að lækka lántökukostnað landsins.

Spánverjar fá senn greitt fyrsta lánið af björgunarpakka Evrópusambandsins. Verður landið þar með það fjórða innan sambandsins til að fá slík lán afgreidd á eftir Grikklandi, Írlandi og Portúgal.

„Án brauðs - enginn friður“ segir á skilti þessarar konu …
„Án brauðs - enginn friður“ segir á skilti þessarar konu sem tók þátt í mótmælunum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert