Breivik í annað fangelsi

Ila öryggisfangelsið í Ósló.
Ila öryggisfangelsið í Ósló. AFP

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik hefur verið fluttur um set, úr Ila-öryggisfangelsinu í Skien-fangelsi þar sem hann verður næstu tíu vikurnar. Breivik var fluttur vegna endurbóta sem gera þarf á öryggismálum í Ila vegna vistunar hans þar, en byggð verður sérstök álma fyrir hann. 

Einnig stendur til að byggja þar sjúkradeild, sem er eingöngu ætluð honum, samkvæmt frétt á vefsíðu Aftenposten.

Breivik verður í Ila-fangelsinu, sem er í útjaðri Óslóar, hvort sem hann verður dæmdur til refsivistar eða sjúkrahúsvistar og þarf því að gera þar ýmsar endurbætur með tilliti til þess hversu lengi hann mun vera þar. Fjórir fangaverðir munu gæta hans á daginn, þrír að næturlagi.

Dómur í máli Breivik fellur 24. ágúst. Verði hann dæmdur ósakhæfur verður geðheilbrigði hans metið á þriggja ára fresti og þá hvort hann geti farið að nýju út í samfélagið. Hann getur aftur á móti krafist þess að undirgangast mat á hverju ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert