Fundu risagjá á suðurskautinu

Vísindamenn fundu risastóra gjá undir Ferrignojökli á suðurheimskautinu.
Vísindamenn fundu risastóra gjá undir Ferrignojökli á suðurheimskautinu. mbl.is/RAX

Vísindamenn hafa uppgötvað gjá á stærð við Miklagljúfur falda undir suðurheimskautinu. Þeir segja þetta ýta undir bráðnun jökulsins og hækkandi yfirborð sjávar.

Gjána, sem er um 1,5 kílómetra djúp, 10 kílómetra breið og 100 kílómetra löng, fundu rannsóknarmenn sem notuðu skanna til að mæla landslagið undir jöklinum, sagði jöklafræðingurinn Robert Bingham við AFP-fréttastofuna í dag.

Hann útskýrði stærðargráðu gjárinnar þannig: „Ef þú ímyndar þér Miklagljúfur fullt af ís og bætir svo kílómetra af ís ofan á það.“ Hann sagði stærðina hafa komið rannsóknarteyminu á óvart.

Vísindamenn trúa því að bráðnun vesturhluta suðurheimskautsins sé völd að um 10% af hækkun sjávarborðs sem hefur orðið vegna loftslagsbreytinga og að sjór muni flæða yfir margar strandbyggðir jarðar innan fárra kynslóða.

Íslagið, sem er fjögurra kílómetra þykkt og teygir sig út í sjó, bráðnar hraðar en annarsstaðar á suðurheimskauti.

En takmörkuð þekking vísindamanna á landslaginu undir jöklinum hefur gert þeim erfitt fyrir um að spá um hve bráðnunin er mikil, segir í rannsóknarniðurstöðum sem birtust í blaðinu Nature.

„Þessi nýfundni dalur eða gjá varð til löngu áður en svæðið varð hulið ís og er talin vera hluti af mun stærra kerfi dala á Suðurheimsskautslandinu, sem við höfum vitað að væri til en ekki vitað hvar þeir væru,“ sagði Bingham.

„Við erum að fá betri mynd á málin og sjáum að hluti þessara dala fara lengra vestur en við vissum áður um.“

Þetta form á gjá sem fannst undir Ferrignojökli er þeirrar gerðar að það myndast þegar meginlandsflekar færast í sundur, álíka og má sjá í stórfljótum í austurhluta Afríku í dag.

„Þetta form af gjá stuðlar að því að heimsálfan er viðkvæmari fyrir ísbráðnun,“ sagði Bingham.

„Vegna gjárinnar er ísinn bæði dýpri og teygir sig lengra inn til landsins eftir því sem fjær dregur frá sjónum og hvorttveggja gerir landslagið undir viðkvæmara fyrir áhrifum ísþynningarinnar. Með því að gera sjávarvatni kleift að flæða inn til landsins, um leið sem gjáin skapar fyrir sjóinn, nær hann betur til íssins meðfram sjávarlínunni.“

Bingham sagði að uppgötvunin hefði sýnt að ekki einungis loftslag nú á dögum valdi bráðnun jökulsins heldur einnig jarðfræðilegir þættir.

„Það sem breytir sýn okkar á þessu málefni er að yfirleitt er því spáð sem nútíma orsakavaldi hnattrænnar hlýnunar og það sem við sjáum er að áhrifin á þessum tímum eru í raun komin til af völdum langtíma jarðfræðilegrar þróunar,“ sagði Bingham.

„Það hjálpar okkur við að viðurkenna að þetta ferli allt er eitthvað sem hefur verið að þróast í gegnum tímans rás.“

Vísindamenn hafa aðeins einu sinni áður heimsótt þetta svæði Suðurheimskautslandsins, fyrir rúmum 50 árum, árið 1961.

Í þetta sinn voru það sérfræðingar frá Háskólanum í Aberdeen og Breska rannsóknastofnunin um Suðurskautslandið sem voru þrjá mánuði við vettvangsrannsóknir árið 2010.

„Við fórum á þetta svæði af því að við vissum af gervihnattarmælingum að ísbráðnun ætti sér stað þarna,“ sagði Bingham.

„Þegar við gerðum rannsóknina og fundum þessa gjá kom það á óvart hversu mun dýpri hún var en við höfðum áður spáð um.“

„Eina leiðin til að finna dal sem er undir svona ísmassa er að nota ratsjármælingar á staðnum,“ bætti hann við.

Talið er að auk loftslagsbreytinga valdi jarðfræðilegir þættir aukinni bráðnun …
Talið er að auk loftslagsbreytinga valdi jarðfræðilegir þættir aukinni bráðnun og hækkun sjávarborðs. Rax / Ragnar Axelsson
Vísindamenn voru að störfum á Ferrignojöklinum árið 2010 í þrjá …
Vísindamenn voru að störfum á Ferrignojöklinum árið 2010 í þrjá mánuði.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert