Mótmæla hertum lögum um fóstureyðingar

Mótmæli í Madríd. Myndin er úr safni.
Mótmæli í Madríd. Myndin er úr safni. AFP

Spænsk stjórnvöld hafa vakið hörð viðbrögð kvenna en þau fyrirhuga að herða lög um fóstureyðingar. Nái breytingarnar fram að ganga verða eyðingar á vansköpuðum fóstrum bannaðar.

Árið 2010 var lögum um fóstureyðingar breytt og þær almennt heimilaðar að 14. viku meðgöngu. Þá var einnig bundið í lög að fóstureyðing mætti fara fram á allt að 22. viku meðgöngu ef heilsu móður væri ógnað eða ef fóstrið væri alvarlega vanskapað.

En í síðustu viku tilkynnti jafnréttisráðherrann Alberto Ruiz-Gallardon að hann væri á móti eyðingu vanskapaðra fóstra.

„Ég skil ekki af hverju við ættum að eyða fóstrum af þeirri einu ástæðu að þau eru fötluð eða vansköpuð,“ sagði hann. Á föstudag útskýrði hann sjónarmið sín enn frekar og vitnaði m.a. til sáttamála Sameinuðu þjóðanna um að þjóðir heims gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til að tryggja réttindi fatlaðs fólks.

Nú fara fram í Madríd mótmæli sem kvennasamtök hafa efnt til vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um fóstureyðingar.

Í yfirlýsingu frá samtökunum kemur fram að breytingarnar myndu færa lögin aftur til einræðistíðar Francos og að með þeim myndi Spánn skera sig úr öðrum Evrópuþjóðum hvað kvenréttindi varðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert