Líkti Ísrael við æxli

Frá Qud-deginum í Íran.
Frá Qud-deginum í Íran. AFP

Mahmoud Ahmandinejad, forseti Írans, líkti Ísrael við „krabbameinsæxli sem fljótlega yrði eytt“ í ræðu á árlegum Quds degi í Teheran fyrr í dag. Á Qud deginum marsera mótmælendur um borgir Írans og mótmæla tilvist Ísraelsríkis.

Að sögn AFP-fréttastofunnar fór Ahmandinejad hörðum orðum um yfirráð Ísraelsmanna á landi Palestínumanna og mælti fyrir því að áhrifum gyðinga og stuðningsmanna þeirra  yrði útrýmt.

Gífurleg spenna ríkir í samskiptum Ísraels og Írans, vegna kjarnorkuáætlunar þeirra síðarnefndu. Hafa Ísraelsmenn aukið viðbúnað sinn undanfarnar vikur og varað við að mögulega verði gripið til sprengjuárásar á sprengjuverksmiðjur Írana, með það fyrir augum að koma í veg fyrir að þeir geti framleitt kjarnorkuvopn.

Íranir neita því að kjarnorkuáætlun þeirra sé nokkuð annað en friðsamleg. Hefur íranski herinn þó lýst því yfir að Ísraelsríki verði gjöreytt verði Ísraelar fyrri til að gera árás.

Dregur nafn sitt af Jerúsalem

Á Qud-deginum marseruðu Íranir um götur og torg víða um Íran og flögguðu palestínska fánanum ásamt myndum af Ayatollah Ali Khamenei, æðsta klerki landsins. Lísti Khamenei því yfir á miðvikudag að það væri heilög skylda Írana að standa með Palestínumönnum í baráttunni við Ísraelsmenn. Dregur Qud-dagurinn, sem haldinn hefur verið allt frá árinu 1979, nafn sitt af arabíska orðinu Qud sem standur fyrir borgina Jerúsalem, sem Ísraelsmenn og Palestínumenn gera báðir tilkall til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert