Handtóku 11 ára þroskahamlaða stúlku

Asif Ali Zardari, forseti Pakistans.
Asif Ali Zardari, forseti Pakistans. BENOIT TESSIER

Forseti Pakistans hefur krafist skýrslu um handtöku ellefu ára þroskahamlaðrar stúlku sem er sökuð um að hafa vanhelgað Kóraninn. Að sögn lögreglunnar var stúlkan handtekin í kristnum hluta Islamabad í síðustu viku eftir að hópur fólks, hamslaus af bræði, krafðist þess að henni yrði refsað.

Að sögn embættismanna átti stúlkan erfitt með að svara spurningum lögreglunnar skýrt og skilmerkilega. Foreldrum hennar hefur verið komið í öruggt skjól í kjölfar hótana. Margar kristnar fjölskyldur á svæðinu hafa flúið heimili sín eftir að óeirðir brutust út vegna málsins.

Ólíkar frásagnir af atburðunum hafa verið birtar í pakistönskum fjölmiðlum. Segja sumir að stúlkan sé með Downs-heilkenni og aðrir að hún sé eldri en 11 ára. Þá er óljóst hvort stúlkan brenndi blaðsíður úr Kóraninum eða hvort síður úr honum hafi fundist í poka í fórum hennar. Hvort sem gerðist, þá safnaðist hópur fólks saman og krafðist þess að til aðgerða yrði gripið. Á lögreglan að hafa hikað við að handtaka stúlkuna en látið undan þrýstingi frá reiðum múgnum sem hótaði að brenna heimili kristinna fjölskyldna til grunna.

Ríkisfjölmiðlar greina frá því að fréttir af málinu hafi vakið athygli forsetans Asif Ali Zardari og hafi hann beðið innanríkisráðuneytið um að skila sér skýrslu um allt sem málinu tengist.

Mikil umræða hefur verið í Pakistan um hörð viðurlög við guðlasti. Mannréttindasamtök hafa lengi vel krafist umbóta en samkvæmt lögunum varðar vanhelgun á Kóraninum við lífstíðarfangelsi. Þá hafa margir þeirra sem hafa verið ásakaðir um guðlast verið myrtir af reiðum samborgurum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert