Konur útilokaðar í háskólum Írans

Bænastund í Háskólanum í Tehran í ramadan-mánuði.
Bænastund í Háskólanum í Tehran í ramadan-mánuði. AFP

Háskólar í Íran hafa ákveðið að útiloka konur frá rúmlega 70 námsbrautum. Undanfarin ár hafa íranskar konur skotist fram úr körlum á menntaveginum. 36 háskólar í Íran tilkynntu í sameiningu að samkvæmt nýrri stefnu verði alls 77 námsleiðir til BA- og BS-prófs hér eftir einungis ætlaðar körlum.

Æðstu klerkar uggandi 

Undanfarin ár hafa konur skotist fram úr körlum í írönskum háskólum. 65% háskólanema eru konur, einungis tveir karlar standast inntökuprófin á móti hverjum þremur konum, og konur hafa í auknum mæli sótt í greinar eins og eðlisfræði og verkfræði. 

Fram kemur á vef breska blaðsins Telegraph að þessi þróun sé æðstuklerkum Írans áhyggjuefni. Þeir séu uggandi yfir félagslegum áhrifum aukinnar menntunar kvenna, en reynslan sýnir að með hærra menntunarstigi eignast konur færri börn og ganga seinna í hjónaband en láta fyrir vikið meira að sér kveða í atvinnulífinu og á opinberum vettvangi.

Konur verði hvort eð er atvinnulausar

Samkvæmt hinni nýju stefnu verða kvenstúdentar útilokaðir frá sumum helstu námsgreinum, s.s. enskum bókmenntum og enskum þýðingum, fornleifafræði, kjarneðlisfræði, tölvunarfræði, hótelrekstri, rafmagnsverkfræði, iðnaðarverkfræði og viðskiptafræði.

Olíuiðnaðarháskóli Írans, sem er með útibú á nokkrum stöðum í landinu, lokar nú dyrum sínum alfarið fyrir kvenstúdentum og segir ástæðuna þá að ekki sé nógu mikil eftirspurn eftir kvenkyns útskriftarnemum á vinnumarkaðinum. Sama segir Isfahan-háskólinn, sem segir að 98% kvenstúdenta endi hvort sem er atvinnulaus.

Vilja konurnar aftur inn á heimilin

Íranski mannréttindalögfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Shirin Ebadi hefur skrifað til Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, og Navi Pillay, mannréttindafulltrúa SÞ, og óskað eftir afskiptum. Segir hún að raunveruleg ástæða breytinganna sé einfaldlega að fækka konum í írönskum háskólum og draga úr baráttu þeirra fyrir auknum réttindum.

„Þetta er allt saman liður í nýrri stefnumótun Lýðveldisins Írans sem gengur út á að koma konum aftur inn á heimilin, vegna þess að þeir þola ekki metnaðarfulla framgöngu þeirra á opinberum vettvangi,“ segir í bréfi Ebadi. Nokkrir íranskir þingmenn hafa einnig gagnrýnt hina nýju menntastefnu en menntamálaráðherra landsins, Kamran Daneshjoo, vísar allri gagnrýni á bug og segir þetta nauðsynlega breytingu til að koma á „jafnvægi“. 

Nóbelsverðlaunahafinn og mannréttindalögfræðingurinn Shirin Ebadi kom hingað til lands.
Nóbelsverðlaunahafinn og mannréttindalögfræðingurinn Shirin Ebadi kom hingað til lands. Mbl.is/Sverrir Vilhelmsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert