Armstrong sviptur titlunum?

Bandaríski reiðhjólakappinn Lance Armstrong hefur tilkynnt að hann sé hættur að berjast gegn ásökunum um ólöglega lyfjanotkun. Bandaríska lyfjaeftirlitsstofnunin (USADA) hótar Armstrong með lífstíðarbanni frá hjólreiðakeppnum og verður hann sviptur Tour de France titlunum sjö.

Grunaður um lyfjanotkun allt frá 1996

Armstrong heldur statt og stöðugt fram sakleysi sínu en segist orðinn þreyttur á að svara ásökunum. Hann er nú fertugur og dró sig úr atvinnumennsku í fyrra. USADA fullyrðir að Armstrong hafi notað ólögleg lyf í því skyni að bæta árangur sinn í keppni allt frá árinu 1996. Armstrong fór með málið fyrir dómstóla til að fá ásökununum hnekkt en tapaði málinu.

Hann er m.a. grunaður um að hafa notað stera, EPO (Erypropoietín), lyf sem eykur þéttni rauðra blóðkorna og þar með súrefnisflutningsgetu blóðs og úthald, og/eða beitt hinu alkunna blóðbragði; blóð er þá tekið úr viðkomandi íþróttamanni, geymt um tíma á meðan hann æfir af krafti, og síðan dælt í hann aftur fyrir keppni til þess að auka súrefnistökuna og þar með úthald. Í gegnum árin hafa bæði hjólreiðamenn, skíðagöngumenn og langhlauparar verið grunaðir um slíkt svindl, og þónokkrir verið gómaðir.

„Nornaveiðar“ segir Armstrong

USADA segir að 10 af fyrrverandi liðsfélögum Armstrong séu reiðubúnir að bera vitni gegn honum. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar, Travis Tygart, segir að mál Armstrong sé sorglegt dæmi um þá nálgun sumra við íþróttir að sigurinn sé ofar öllu öðru. 

Í yfirlýsingu sem Armstrong sendi frá sér í dag segir hann að sá tími komi í lífi hvers manns sem hann verði að segja að nú sé komið gott. „Hjá mér er sá tími núna.“ Hann kallar ásakanirnar á hendur sér nornaveiðar og segir þær hafa tekinn mikinn toll af sér og fjölskyldu sinni. Hann dregur jafnframt í efa að USADA hafi umboð til þess að svipta hann titlunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert