Ísak stefnir á New Orleans

Frá Pontchartrain vatni í New Orleans í gær.
Frá Pontchartrain vatni í New Orleans í gær. AFP

Fellilbylurinn Ísak stefnir nú í átt að borginni New Orleans í Louisianaríki í Bandaríkjunum eftir að hafa gengið á land í nótt. Ísak náði styrk fellibyls í gær, hann fer á 130 kílómetra hraða á klukkustund og nú er afar hvasst í suðurhluta Louisiana og úrhellisrigning.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Louisiana og nágrannaríkinu Mississippi, á fimmta þúsund þjóðvarðliðar eru í viðbragðsstöðu og Bobby Jindal, ríkisstjóri í Louisiana, segir íbúum að vera viðbúnir hinu versta. Borgarstjórinn í New Orleans, Mitch Landrieu, segir að þar megi búast við allt að 400 millimetra úrkomu í dag.

Meira en 300.000 íbúar Louisianaríkis eru nú án rafmagns.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hvetur íbúa svæðisins til að taka ástandið alvarlega og hefur varað við stórfelldum flóðum og mikilli eyðileggingu. „Ég hvet alla íbúa til að hlusta á yfirvöld almannavarna og fara eftir leiðbeiningum þeirra, líka ef þeir segja að fólk eigi að yfirgefa heimili sín,“ sagði forsetinn. „Þetta er ekki rétti tíminn til að storka örlögunum.“

Í dag eru sjö ár liðin frá því að fellibylurinn Katrína olli gríðarlegri eyðileggingu á þessum slóðum og létust þá á annað þúsund manns. Melody Barkum, íbúi í New Orleans, segir að ástandið núna veki minningar um þær hamfarir, en hún var þá föst uppi á þaki húss síns svo dögum skipti, án matar og drykkjarvatns. „En ég er ekki hrædd,“ sagði Barkum í samtali við AFP-fréttastofuna. „Fyrst ég lifði Katrínu af, þá lifi ég þetta líka af.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert