Kraftaverkabarn heim af spítala

Nýburi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Nýburi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

„Kraftaverkabarnið“ sem Argentínumenn kalla svo var útskrifað af sjúkrahúsi í Buenos Aires í dag. Saga stúlkubarnsins vakti mikla athygli í Argentínu, en hún fæddist 3 mánuðum fyrir tímann í apríl og var úrskurðuð látin. 12 klukkustundum síðar var svo komið að henni á lífi í líkhúsinu.

Stúlkan hlaut nafnið Luz Milagros, en millinafnið þýðir „kraftaverk“ á spænsku. Samkvæmt tilkynningu frá sjúkrahúsinu í dag er líðan hennar stöðug, en hún nærist gegnum slöngu og er tengd öndunarvél til að hjálpa henni þar sem hún hefur varla orku til að anda af sjálfsdáðum allan sólarhringinn.

Foreldrarnir fundu hana á lífi

Luz Milagros var aðeins um 780 grömm þegar hún fæddist hinn 3. apríl. Læknar skoðuðu hana vandlega og úrskurðuðu að hún væri andvana fædd. Það voru svo foreldrarnir sem komu að henni á lífi í líkhúsinu, þegar þau fóru þangað til að kveðja dóttur sína í hinsta sinn 12 klukkustundum eftir fæðinguna. 

Eftir að hafa varið fyrstu 5 mánuðum lífs síns á gjörgæslu er kraftaverkabarnið því loks farið heim í fangi móður sinnar. Sérstakur tækjabúnaður verður settur upp á heimilinu til að tryggja að hún lifi, því hún er enn afar viðkvæm. 

Foreldrarnir höfðu á meðgöngunni ákveðið að stúlkan skyldi heita Lucia Abigail, en í ljósi atburðanna skiptu þau um skoðun og völdu henni hið merkingarþrungna nafn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert