Moska vanhelguð með mannasaur

Innanríkisráðherra Frakklands, Manuel Valls, fordæmdir harðlega að moska hafi verið vanhelguð í frönsku borginni Limoges en mannasaur var atað á hurð moskunnar.

Árásin var gerð síðastliðna nótt í kjölfar ofbeldisöldu í Egyptalandi og Líbíu vegna bandarískrar myndar sem einhverjir múslímar líta á sem móðgun við Múhameð spámann. Framleiðandi myndarinnar, Terry Jones, er helst þekktur fyrir að hafa hótað því fyrir hönd safnaðar síns fyrir tveimur árum að brenna Kóraninn 11. september, níu árum eftir hryðjuverkaárásirnar á tvíburaturnana.

Ekkert hefur hins vegar komið fram sem tengir vanhelgunina við ofbeldið í Egyptalandi og í Líbíu en Christopher Stevens, sendiherra Bandaríkjanna í Líbíu, var myrtur þegar ráðist var á ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í Benghazi í gærkvöldi.

„Árásin er grafalvarleg árás á heiður múslíma og áfall fyrir alla borgara landsins sem hafa virðingu og umhyggju að leiðarljósi,“ segir í yfirlýsingu frá Valls.

Alls er talið að um fjórar milljónir múslíma búi í Frakklandi og eru margir þeirra ósáttir við lög sem banna konum að bera búrkur eða slæður sem hylja andlit þeirra í landinu. 

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert