Frumvarp um hjónabönd samkynhneigðra fellt

AFP

Frumvarp til laga um að heimila hjónabönd samkynhneigðra var fellt á ástralska þinginu í morgun. Meðal þeirra sem greiddu atkvæði gegn frumvarpinu er forsætisráðherra landsins og formaður Verkamannaflokksins, Julia Gillard.

Engar flokkslínur voru lagðar við afgreiðsluna innan Verkamannaflokksins sem þýðir að mjög misjafnt var eftir þingmönnum flokksins hvort þeir greiddu atkvæði með eða gegn frumvarpinu.

Hart hefur verið tekist á um frumvarpið undanfarna daga á þingi. Alls studdu 42 þingmenn frumvarpið en 98 voru á móti. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Tony Abbott, formaður Íhaldsflokksins, greiddi einnig atkvæði á móti frumvarpinu. Íhaldsflokkurinn hafði gefið það út fyrir afgreiðslu frumvarpsins að hann væri á móti frumvarpinu og greiddu allir þingmenn flokksins atkvæði gegn því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert