Kjörinn forseti skipi „evrópska ríkisstjórn“

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands.

Utanríkisráðherrar ellefu ríkja Evrópusambandsins telja að meðal þess sem gera þurfi til þess að styrkja sambandið í sessi sé að framkvæmdastjórn þess fái meiri völd en hún hafi í dag. Þá segir í skýrslu sem hópurinn hefur sent frá sér að hluti hans vilji að forseti framkvæmdastjórnarinnar verði kjörinn í beinni kosningu og hann skipi síðan „evrópska ríkisstjórn“ sína.

Hópinn, sem ætlað er að fjalla um framtíð Evrópusambandsins, skipa utanríkisráðherrar Þýskalands, Frakklands, Ítalíu, Spánar, Póllands, Belgíu, Hollands, Lúxemburg, Danmerkur, Portúgals og Austurríkis en hann fundaði síðastliðinn mánudag í Varsjá, höfuðborg Póllands. Formaður hópsins er Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands. Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að tillögurnar séu í sama anda og hugmyndir sem forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manueal Barroso, hafi sett fram í stefnuræðu sinni 12. september síðastliðinn.

Minna verði um einróma samþykki

Fram kemur að til þess að sumar af tillögum hópsins nái fram að ganga þurfi að breyta sáttmálum Evrópusambandsins en rifjað er upp í frétt BBC að oft hafi gengið erfiðlega að breyta sáttmálunum þar sem til þess þurfi samþykki allra ríkja sambandsins eins og staðan sé í dag. Í skýrslunni kemur fram að í framtíðinni muni hugsanlega aðeins þurfa til þess aukinn meirihluta í stað einróma samþykkis.

Einnig er lögð á það áhersla í skýrslunni að stuðlað verði að því að kosningar í ríkjum Evrópusambandsins snúist meira um sambandið en innanlandsmál í hverju ríki. Lagt er til að Evrópuþingið geti lagt fram lagafrumvörp að eigin frumkvæði en eins og staðan er í dag hefur framkvæmdastjórnin ein rétt til þess. Ráðherraráðið og Evrópuþingið fjalla síðan um frumvörpin og gera á þeim breytingar.

Evrópsk landamæralögregla í Schengen

Þá er einnig sett fram sú hugmynd að sett verði á laggirnar efri deild Evrópuþingsins með fulltrúum ríkja Evrópusambandsins og að þjóðþingin komi meira að störfum sambandsins og auki þannig lýðræðislegt lögmæti þess. Ennfremur er lagt til að utanríkisþjónusta Evrópusambandsins verði styrkt í sessi, að ákvarðanataka varðandi utanríkis- og varnarmál verði oftar með meirihluta atkvæða í stað einróma samþykkis og að staða Evrópusambandsins á alþjóðavettvangi verði styrkt.

Lögð er einnig áhersla á nauðsyn þess að styrkja ytri landamæri Schengen-samstarfsins með því að setja á laggirnar Evrópska landamæralögreglu. Til skemmri tíma væri hins vegar hægt að innleiða evrópska vegabréfaáritun. Lagt er að sama skapi áherslu á sameiginlegan markað fyrir vopnaframleiðslu og aukinn samruna í varnarmálum sem að lokum gæti að mati sumra í hópnum leitt til Evrópsks hers.

Frétt BBC

Skýrsla hópsins (pdf-skrá)

mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert